Sögur af sjálfum mér. Nr. 4.

Næsti staður er Versl. Esja Kjalarnesi. Þegar ég vann þar var eigandinn Magnús Leopoldsson. Ég byrjaði sem bensínafgreiðslumaður og átti líka að hjálpa til í sjoppunni. Ekki leið á löngu þar til Magnús fól mér fleiri verkefni. Það fór svo að ég var byrjaður að gera allt sem þurfti að gera t.d. vörumóttöku, fylla upp í hillur og tala nú  ekki um að saga kjötskrokka. Það kenndi Magnús mér og lagði ofuráherslu á að fara varlega, sem ég og gerði. Síðar var ég byrjaður að gera upp og fela peningana á ákveðnum stað. Fannst mér mjög vænt um þetta mikla traust sem Magnús sýndi mér og brást ég aldrei því trausti. En svo þegar ég er hættur að vinna þarna kemur upp þetta leiðindamál þar sem Magnús er bendlaður við svokallaða Geirfinnsmál. Þar sem ég hafði kynnst Magnúsi vel, var ég alveg sannfærður um að hann gæti aldrei verið sekur um svo ljótan glæp sem hann var ásakaður um því meiri öðlingi hafði ég bara ekki kynnst. Lenti ég oft í hávaða rifrildi við fólk sem sagði að hann væri sekur. Nú vita allir hvernig það mál fór þ.e.a.s. aðkoma Magnúsar var enginn. 

Næsti staður verður Silli og Valdi í Aðalstræti.


sögur af sjálfum mér nr. 3

Sólarferð: Fyrir allmörgum árum fórum við hjónin í sólarlandaferð til Portúgals. Þetta var vinsæl ferð og mjög margmenn. Þarna voru meðal annars þrír Hornfirðingar ásamt mökum. Þeir voru þá nýbúnir að vera á humarveiðum og virtust eiga nóg af peningum enda áttu þeir sér einkunnarorð: Peningar skipta ekki máli. Þeir voru mjög áberandi í þessari ferð og langar mig að segja frá skemmtilegri golfferð en nóg er af taka. Farastjórar í þessari ferð voru tveir. Annar þeirra lagði fyrirspurn meðal farþega hvort áhugi væri á golfferð en sjö til átta þyrfti til að geta farið í þessa ferð. Ég spilaði golf á þessum árum og skráði mig ásamt sjö öðrum svo það var ákveðið að slá til. Hornfirðingarnir komust svo að þessu of seint þannig að ekki var hægt að bóka þá. En peningar skipta ekki máli, sögðu þeir, og við ætlum í þessa golfferð á okkar eigin vegum. Farastjórinn pantaði tvo leigubíla fyrir okkur en Hornfirðingarnir tóku leigubíl á undan okkur. Þegar við komum út á golfsvæðið voru Hornfirðingarnir búnir að taka golfbíl að láni. En enginn þeirra hafði spilað golf áður og enginn áhugi að byrja á því þarna. Golfbíllinn var gerður fyrir tvo farþega en Hornfirðingarnir höfðu borgað vel aukalega til þess að fá að vera þrír í bílnum. Svo byrjuðum við að leika golf og þegar einhver okkar sló boltann út fyrir braut komu þeir á fleygiferð á bílnum til að leita að boltanum. Svo gerðist það að þeir hurfu. Hvað er nú í gangi hugsuðum við. En það leið nú ekki á löngu þar til þeir komu til okkar og með bílinn fullan af Vodka í kók. "Gjörið svo vel og fáið ykkur," sögðu þeir. En undirtektir voru dræmar að fá sér Vodka og kók snemma morguns. "Allt í lagi sögðu þeir. "Þá er bara meira fyrir okkur. Svo hófst rallý-akstur þeirra. Þetta getur ekki endað vel hugsuðum við. Það kom líka á daginn. Þeir hvolfdu bílnum og allt Vodkað í kók fór út um víðan völl. Þeir hlógu vel og lengi að þessu, reistu bílinn bara við og svo var brunað í golfskálann til að kaupa meira Vodka í kók. Nú fór að síga á seinni hlutann hjá okkur en þá sáum við að eftirlitsbíll golfvallarins kom á fleygiferð með blikkandi ljós í áttina að golfbíl Hornfirðingana. Jæja, hugsuðum við, nú ætla þeir að taka golfbílinn af Hornfirðingunum. En  nei, þeir voru að koma með eldsneyti á bílinn. "Já, auðvita," sögðum við. "Þeir vilja ekki að svona góðir viðskiptavinir verði stopp. Þegar þarna var komið sögu voru þeir án efa búnir að fara fimm eða sex sinnum í golfskálann til að fylla vel á sig! Þegar við komum svo í golfskálann eftir skemmtilegan dag voru Hornfirðingarnir búnir að panta "hlaðborð" fyrir okkur. Eftir að vera búnir að borða þá var okkur sagt að það gæti tekið um það bil klukkutíma að fá leigubíl. En viti menn. Ekkert vandamál fyrir Hornfirðingana. Þeir vissu af þessu og létu leigubílstjórann, sem ók þeim um morguninn, bara að bíða eftir sér allan daginn. Þið munið: Peningar skipta ekki máli. 


Sögur af sjálfum mér nr. 2

Í þá góðu gömlu daga: Þegar ég var 16 ára keypti ég mér Hondu skellinöðru. Tilgangurinn með kaupunum var meðal annars að geta sótt vinnu á Geithálsi þar sem ég hafði fengið sumarstarf. Geitháls var á þessum árum afskaplega vinsæll staður og mikið sóttur af fólki á öllum aldri. Geitháls var um það bil fimm mínútu keyrsla frá Rauðavatni. Unnið var þar á þrem vöktum en Geitháls var opinn allan sólarhringinn sem gerði hann alveg einstakan á þeim árum því það voru ekki margir staðir opnir allan sólahringinn. Á þessum tíma var malarvegur að Geithálsi sem var stundum mjög holóttur en engu að síður var mjög vinsælt að fara í bíltúr alla leið á Geitháls og fá sér t.d. pulsu og kók. Mesta fjörið var þó að vinna á nóttinni og þó sérstaklega um helgar. Stundum var það mikið fjölmenni og mikið grín og gaman. Þá fannst manni lang skemmtilegast í vinnunni. Stundum komu "kaggar" af Keflavíkurflugvelli. Voru þar hermenn og íslenskar stelpur með þeim. Ég man hvað mér fannst skrítið að sjá þessa þeldökku menn. Sumar stelpurnar huldu andlit sín svo ekki væri hægt að þekkja þær. Þessir hermenn voru alltaf afskaplega skemmtilegir og kurteisir og versluðu yfirleitt mjög mikið. Ég man ennþá þegar einn þeirra gaf mér bjór sem var fyrsti bjórinn sem ég eignaðist. Eina nóttina renndi bíll í hlað oog bílstjórinn bað mig að "fylla hann" sem og ég gerði. Þegar hann fór út úr bílnum til að borga sá ég að hann var dálítið "valtur" en ég var ekkert að spá í það enda nóg að gera. Svo ók hann brott en um það bil hálftíma síðar komu lögreglubílar og sjúkrabíll á fullri ferð farm hjá Geithálsi. Einn lögreglubíllinn stoppaði og út úr honum steig lögreglumaður og spurði mig hvort ákveðinn bíll hefði komið við og tekið bensín. Ég játti því og lögreglumaðurinn sagði að ég mætti aldrei afgreiða bensín mönnum sem væru undir áhrifum áfengis. Hafði þá þessi ökumaður endað ökuferðina út í skurði ekki svo langt frá Geithálsi. Mesta fjörið var þó þegar hestamenn komu á nóttinni um helgar. Þá vildi fólk fá að fara á bak. Ef stelpurnar voru í pilsum var þeim (pilsunum) bara kippt upp og svo var farið á bak. Hestamennirnir pössuð alltaf vel upp á að ekki hlytist slys af enda teymdu þeir hestana undir fólkinu, en þeim leiddist þetta nú ekki. Var þarna mikið grín og glens og pelar af öllu tagi teygaðir. Aldrei minnist ég þess að lögreglan þyrfti að hafa afskipti af fólki þarna, hvorki að degi né nóttu. 


Sögur af sjálfum mér!

Datt í hug að setja inn af og til sögur af sjálfum mér. Hér kemur sú fyrsta og heitir: Að brjóta ísinn: Ég fór í söluferðir út á land í fjöldamörg ár að selja sælgæti og ýmislegt annað. Var þá með vörurnar í bílnum og seldi beit út bílnum. Lenti ég í ýmsu skemmtilegu og oftar en ekki óvæntu. Þessi saga gerðist þegar ég var að selja fyrir austan fjall fyrir mjög mörgum árum. Ég gekki inn í sjoppuna sem var þarna langt frá mannabyggð en vinsæll áningarstaður. Eigandinn var nú ekki þekktur fyrir að brosa mikið en var samt kurteis. Ég notaði þá aðferð að byrja á að nefna vinsælustu vörunar mína og svo koll af kolli. Í þetta skiptið gekk ekkert að eiga við karlinn sem sagði bara: Nei, nei og svo kom bara meira nei og var ég orðinn dálítið pirraður á honum en lét það að sjálfsögðu ekki í ljós. Datt mér þá í hug að bjóða honum "Prins Polo" en það var hálfgerður þjóðarréttur Íslendinga á þessum tíma. Ha, sagði karlinn: Ert þú með "Prins Polo"?? Alveg steingáttaður. Nei nei sagði ég, en mig langaði bara að fá eitt já frá þér. Við þetta svar þá sprakk karlinn af hlátri. Ég vissi ekki að hann gæti hlegið en þarna grét hann af hlátri og byrjaði að kaupa af mér vörur. Held ég að ég hafi aldrei selt honum eins mikið og þarna. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband