15.3.2022 | 11:43
Sögur af sjálfum mér nr. 2
Í þá góðu gömlu daga: Þegar ég var 16 ára keypti ég mér Hondu skellinöðru. Tilgangurinn með kaupunum var meðal annars að geta sótt vinnu á Geithálsi þar sem ég hafði fengið sumarstarf. Geitháls var á þessum árum afskaplega vinsæll staður og mikið sóttur af fólki á öllum aldri. Geitháls var um það bil fimm mínútu keyrsla frá Rauðavatni. Unnið var þar á þrem vöktum en Geitháls var opinn allan sólarhringinn sem gerði hann alveg einstakan á þeim árum því það voru ekki margir staðir opnir allan sólahringinn. Á þessum tíma var malarvegur að Geithálsi sem var stundum mjög holóttur en engu að síður var mjög vinsælt að fara í bíltúr alla leið á Geitháls og fá sér t.d. pulsu og kók. Mesta fjörið var þó að vinna á nóttinni og þó sérstaklega um helgar. Stundum var það mikið fjölmenni og mikið grín og gaman. Þá fannst manni lang skemmtilegast í vinnunni. Stundum komu "kaggar" af Keflavíkurflugvelli. Voru þar hermenn og íslenskar stelpur með þeim. Ég man hvað mér fannst skrítið að sjá þessa þeldökku menn. Sumar stelpurnar huldu andlit sín svo ekki væri hægt að þekkja þær. Þessir hermenn voru alltaf afskaplega skemmtilegir og kurteisir og versluðu yfirleitt mjög mikið. Ég man ennþá þegar einn þeirra gaf mér bjór sem var fyrsti bjórinn sem ég eignaðist. Eina nóttina renndi bíll í hlað oog bílstjórinn bað mig að "fylla hann" sem og ég gerði. Þegar hann fór út úr bílnum til að borga sá ég að hann var dálítið "valtur" en ég var ekkert að spá í það enda nóg að gera. Svo ók hann brott en um það bil hálftíma síðar komu lögreglubílar og sjúkrabíll á fullri ferð farm hjá Geithálsi. Einn lögreglubíllinn stoppaði og út úr honum steig lögreglumaður og spurði mig hvort ákveðinn bíll hefði komið við og tekið bensín. Ég játti því og lögreglumaðurinn sagði að ég mætti aldrei afgreiða bensín mönnum sem væru undir áhrifum áfengis. Hafði þá þessi ökumaður endað ökuferðina út í skurði ekki svo langt frá Geithálsi. Mesta fjörið var þó þegar hestamenn komu á nóttinni um helgar. Þá vildi fólk fá að fara á bak. Ef stelpurnar voru í pilsum var þeim (pilsunum) bara kippt upp og svo var farið á bak. Hestamennirnir pössuð alltaf vel upp á að ekki hlytist slys af enda teymdu þeir hestana undir fólkinu, en þeim leiddist þetta nú ekki. Var þarna mikið grín og glens og pelar af öllu tagi teygaðir. Aldrei minnist ég þess að lögreglan þyrfti að hafa afskipti af fólki þarna, hvorki að degi né nóttu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)