Sögur af sjálfum mér nr. 5

Nú er það Silli og Valdi í Aðalstræti: Silli og Valdi voru nánast alsráðandi á matvörumarkaðinum á þessum tíma. Bara KRON var með fleiri verslanir en þeir. Sigurjón hét verslunarstjórinn í Aðalstræti þar sem ég vann. Það sem gerði Aðalstrætisbúðina sérstaka var að þar var vörulager fyrir allar hinar búðirnar. Var aðal lagerinn í svokölluðum "Fjalaketti". Það var oft mjög spaugilegt að finna ákveðnar v0rur þarna en bara Sigurjón vissi hvar hinar og þessar vörur voru geymdar. "Þú bara skríður yfir kaffibaunapokana og þar bak við finnur þú.." Já, það passaði þar var varan sem ég átti að ná í svo dæmi sé tekið. Í Aðalstrætisbúðinni vann líka Logi sem síðar var verslunarstjóri hjá Silla og Valda á Laugavegi og stofnaði svo Verslunina Vínberið. Áttum við síðar eftir að hafa mikil viðskipti saman og svo skemmtilega vildi til að við vorum í sömu ferð til Rússlands árið 2016. Blessuð sé minning hans. Í Aðalstrætisbúðinni komu oft rónar að versla. Þetta voru hinir ágætustu menn og aldrei þurftum við að hafa áhyggjur að þeir stælu. Voru yfirleitt bara að kaupa kardimommudropa og Póló drykk. Eitt sinn var ég að labba rúntinn á laugardagskvöldi í Austurstræti og þá er kallað á mig úr skúmaskoti. Þar var Kristján róni sá ágæti maður og bað mig um síkarettu sem ég átti ekki. Reykir þú ekki spurði hann mig? Jú, ég reyki pípu sagði ég. Þá dró hann upp þá stæðstu pípu sem ég hef séð og bað hann mig um píputóbak sem hann fékk en hálfur pakkinn fór þarna en geði ekki mikið til því Kristján var mikill sómamaður og aldrei með nein læti. Læt þetta duga en af nóg er að taka.


Bloggfærslur 22. apríl 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband