Gamlar vísur nr. 14.

Nú er góður tími að setja inn nokkrar vísur. 

155. Vísa þessi er eignuð sera Jóni Þorlákssyni sem var prestur í Selárdal.

Grundar dóma hvergi hann

hallar rjettu máli,

stundar sóma aldrei ann

illu pretta táli.

156. Eftir Sig. Breiðfjörð.

Lifnar hagur nú á ný,

mjer er bragur spunninn,

hlýr og fagur austri í

upp er dagur runninn.

157. Gísli nokkur á Skörðum kveður svo:

Jeg mun svelgja eins og var,

öls og fjelga kaupum.

Þó skinhelgir hræsnarar

hafi velgju á staupum.

158. Páll Ólafsson kveður svo.

Sunnan vindar fjöllum frá

fönnum hrinda síðar,

grænum lindum girðir þá,

grundin, lindar, hlíðar.

159. Eftir sama.

Folin ungur fetar ljett,

fjallabungur, grundir,

fen og sprungur fór á sprett

fjöllin sungu undir.

160. Eftir sama.

Hleypur geyst á alt hvað er,

vindur reist að framan,

þjóta neistar þar og hjer

þetta veistu er gaman.

161. Úr "rinnu".(rímu)

Valla sallar vargur sá

valla galla bar hann,

falla spjallið fræða má

fallegur allur var hann.

161. (Aftur, svona er það bara innskot frá mér). Gömul vísa.

Gosi fór að gera vísu,

í gasalegu drykkju masi.

Gosi týndi einni ýsu

í asalegu heimsku þrasi.

162. Eftir Sigurð Breiðfjörð.

Fjell í valinn elli alin

æða græða klæðir svæði

svella kvalir hrelli halinn

hræðis næði en glæðist mæði. 

163. Eftir sama.

Örvar hellast ógnir hrella

iður vella blóðlitaðar

svellin skella fólk og fella

feigð um velli köstum raðar.

164. Árni Böðvarsson skáld á Ökrum kvað:

Háttur ljettur, þáttur þjettur

þeygi rjettur fer,

máttur settur, dráttur dettur,

dregin sljettur er.

165.

Oft er æði í annríki,

oft er kvæði gleðjandi

oft er ræði í útvari

oft er næði þreitandi.

166. Eftir eitthvern Hallgrím Jonsson læknir.

Hún gat sjéð af hundsfylli

hún gat ljéð eitt rúmbæli,

hún var svona hress við vég

hún var kona rausnaleg.

167. Þessi er eftir Hannes Bjarnason prest í Ríp.

Sú var fríðust drósa drós,

dyggð og tryggðum vafin,

sannnefnd viðis ljósa ljós,

landsins priði hrós og rós.

168. Gömul vísa. Bólu Hjálmar.

Sumir völvu sanna spá

sumir fölvir hnigna þá,

sumir mölva sverðin blá

sumir bölva en höggin fá.

169. Ort um mann er hjet Skalli sem hafði exi með skalla í hendi að vopni.

Heggur Skalli í harðan skalla

hann brá skalla viður,

otaði skalla undir skalla

og í því skall hann niður.

-----------------------

Held svo áfram síðar. Slatti eftir. 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Sumar þessar vísur eru algjörlega "tímalausar" og eiga alltaf við.  Sumir myndu segja að þær væru "klassík"........

Jóhann Elíasson, 31.3.2020 kl. 21:42

2 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Þakka þér fyrir Jóhann. Það eiga eftir að koma alveg magnaðar vísur um t.d. glímuferð til Danmörku þar sem glímukappanir eru að kasta fyrripörtum á hvorn annan.

Sigurður I B Guðmundsson, 31.3.2020 kl. 23:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband