18.7.2020 | 11:47
G.G. 100 ára
Í dag 18 júlí hefði faðir minn Guðmundur Guðmundarson orðið 100 ára. Hann samdi mikið af ljóðum og vísum. Ég ætla núna og næstu daga að setja inn á bloggið eitthvað af þeim.
Til Gógó:
Nóttin er mér yndisleg
unaðs hlýir straumar
ég og þú og þú og ég
þar eru mínir draumar.
-Og svo þetta:
Lífið grátt þó leiki mig
lofgjörð flyt ég slíka:
að ég megi elska þig
í eilífðinni líka.
-------
2001: Gleymskan á sér ótal stig
sem erfitt er að greina.
Ellin sífellt angrar mig
ei ber því að leyna.
-------
Þegar kona þráir mann
þarf hún vel að tryggja
með góðu skapi að gleðja hann
varast hann að styggja.
------------
Konur Íslands kætir mest
sem karlar hafa að bjóða
enda kemur það allra best
ef þeir kunna að ljóða.
-----
Þegar pabbi var 12 ára birtist ljóð eftir hann í Árvaki, bekkjarblað 8.A.
Austurbæjarskóli, desember 1932.
Jólin.
Nú fagurt er á Fróni,
það fannhvítt er sem mjöll,
leikur dýrðarljómi
leiftrandi um frosin völl
---
Jólagleðinnar gaman
gefur oss mátt og þrótt.
Yndi er að syngja saman
sálma um jólanótt.
---
Gleðjast börnin góðu
glaðan hefja brag.
Í næturhúmi hljóðu
þau hugsa um jóladag.
---
Leiftrandi um lofthvelið bláa
ljómar guðs dýrðarsól.
Ég enda nú óðinn minn smáa
og óska ykkur: Gleðileg jól!
-----------------
Þegar G.G. varð sjötugur:
Á sjötugsdegi meðal góðra gesta
við gleði sanna, kæti, fjör og hróp,
sú ákvörðun, sem ég tel allra besta,
sem elding björt, þá fram á sviðið hljóp:
Ég ákvað næstu 5 ÁRUM AÐ FRESTA,
fleiri mættu bætast í þann hóp!
Með þökk fyrir vinsemd 18/7 s.l.
G. G.
(Ekkert mál og engan mun það saka
eftir 5 ár vinum til mín sný,
því gleðskapinn ég ætla að endurtaka,
er ég gerist sjötugur á ný!)
-----------------
17/4 við andlát Gógó.
Ég kom í dalinn, kæra fljóð
í kvöldsins töfra frið
og fuglar sungu ástaróð
um allt sem þráðum við.
---
Mín ósk og þrá var aðeins sú
að una þér svo heitt.
Ó kveðjustund því komstu nú
þitt kall ei skilur neitt.
---
Að kveðja þig, það kvelur mig
því kvöldið leið svo fljótt.
Í dalnum hér ég dvel hjá þér
í draumi hverja nótt.
---------------
Læt þetta duga núna en það kemur meira.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.