7.5.2021 | 00:18
Föstudagsgrín
Fyrst er það fimman: Hún fjallar um iðnaðarmenn sem þurftu að hætta: 1. Rak við í lófan á sér. 2. Málarinn sem fékk málverk. 3. Smiðurinn sem átti undir högg að sækja. 4. Skósmiðurinn sem hringsólaði. 5. Smiðurinn sem boraði upp í nefið á sér. Næst eru það gleðikonurnar.
Ferðamaður nokkur spurði eitt sinn gamla konu í Skagafirði, hvort hún hefði búið þar alla ævi? O, ekki ennþá, svaraði sú gamla afdráttarlaust.
Ég er alltaf fyrstur til að hlæja að mistökum mínum. Þú hlýtur svo sannarlega að lifa skemmtilegu lífi!
Getur þú lánað mér fyrir strætó? Ég á bara þúsund kall. Fínt þá tek ég bara leigubíl.
Steindór var sjálfur að afgreiða á bílastöðinni. Það var þegar "ástandið" var í algleymingi, og var ös mikil. Stúlka úr "ástandinu", sem Steindór þekkti, kemur inn og pantar bíl. Þér verðið að bíða, sagði Steindór. Nokkru síðar kemur liðsforingi, og lætur Steindór hann fá bíl á undan stúlkunni. Hvaða ósvífni er þetta segir stúlkan, látið þið Ameríkana ganga fyrir? Nú gerið þið það ekki líka? svaraði Steindór.
Tannlæknir kom eitt sinn á stöð Steindórs og pantaði bíl. Það er enginn bíll til, svaraði Steindór. Ég þarf að fá bíl, hverju sem tautar, varð þá tannlækninum að orði. Hvernig ætlar þú að fara að því, þegar enginn bíll er á stöðinni? Eða getur þú dregið tönn úr tannlausum manni? svaraði Steindór.
Bóndi á Hörgárdal heyrði sagt frá því, að nágranni hans hefði látið stækka mynd af konu sinni, en hún var ófríð mjög og stórskorin. Þá varð honum að orði: Mér finnst, að hann hefði heldur átt að láta minnka hana.
Sigurður Nordal ritaði nafn sitt fyrst á skólaárum sínum S. Nordal. Þá fundu skólabræður hans upp á því að kalla hann Snordal. Nú breytti Sigurður nafninu þannig, að hann ritaði það Sig. Nordal. Ekki gáfust skólabræður hans upp við það, og nefndu hann nú Signor Dal. Þá fór Sigurður að rita sitt fulla nafn og hefur gert það síðan.
Þá er komið að K.N. Úr Landnemaljóðum:
Ég þekki þá sjálfur, og það voru menn,
sem þrekið var gefið;
og taka í nefið.
Þeir unnu eins og hestar og átu eins og naut
með eldheitu blóði,
en bitu á jaxlinn, ef brennivín þraut,
og bölvuðu í hljóði.
---
Vonbrigði:
Ég bað hann ekki, aðeins lét hann skilja,
að örðug myndi verða þessi ferð,
og lítil hjálp, ef gjörð af góðum vilja,
frá gömlum vini reyndist mikilsverð.
En áform mín að engu voru gjörð,
og orðin féllu þar í grýtta jörð.
Á sjó og landi:
Ægis dætur hef ég hitt
hlæjandi úti á sænum,
líka hafa mér stundum stytt
stúlkurnar hér á bænum.
Að lokum er það "gráa svæðið":
Mér er illt í mænunni,
mold er í öllum veggjum.
Haninn ríður hænunni,
hænan verpir eggjum.
---
Þau "blikkuðust" á brautinni,
úr bænum héldu saman.
Löðust frammi í lautinni.
Lítið er ungs manns gaman.
---
Eitt sinn þegar Ingileif
á var nærpilsinu,
Björn þá sjöunda boðorð reif
burt úr lögmálinu.
---
Einatt það mér angur jók
með öðru fleira mörgu,
að danskur maður dreif sinn lók
í deshúsið á Björgu.
---
Einu gilda má það mig,
hvað Munda tólin kitla.
En oft má fletta upp um sig
hún Indíana litla.
Læt þetta duga núna.
Athugasemdir
Godur....
Sigurður Kristján Hjaltested, 7.5.2021 kl. 09:09
Þakka þér fyrir nafni.
Sigurður I B Guðmundsson, 7.5.2021 kl. 10:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.