20.3.2022 | 15:51
sögur af sjálfum mér nr. 3
Sólarferð: Fyrir allmörgum árum fórum við hjónin í sólarlandaferð til Portúgals. Þetta var vinsæl ferð og mjög margmenn. Þarna voru meðal annars þrír Hornfirðingar ásamt mökum. Þeir voru þá nýbúnir að vera á humarveiðum og virtust eiga nóg af peningum enda áttu þeir sér einkunnarorð: Peningar skipta ekki máli. Þeir voru mjög áberandi í þessari ferð og langar mig að segja frá skemmtilegri golfferð en nóg er af taka. Farastjórar í þessari ferð voru tveir. Annar þeirra lagði fyrirspurn meðal farþega hvort áhugi væri á golfferð en sjö til átta þyrfti til að geta farið í þessa ferð. Ég spilaði golf á þessum árum og skráði mig ásamt sjö öðrum svo það var ákveðið að slá til. Hornfirðingarnir komust svo að þessu of seint þannig að ekki var hægt að bóka þá. En peningar skipta ekki máli, sögðu þeir, og við ætlum í þessa golfferð á okkar eigin vegum. Farastjórinn pantaði tvo leigubíla fyrir okkur en Hornfirðingarnir tóku leigubíl á undan okkur. Þegar við komum út á golfsvæðið voru Hornfirðingarnir búnir að taka golfbíl að láni. En enginn þeirra hafði spilað golf áður og enginn áhugi að byrja á því þarna. Golfbíllinn var gerður fyrir tvo farþega en Hornfirðingarnir höfðu borgað vel aukalega til þess að fá að vera þrír í bílnum. Svo byrjuðum við að leika golf og þegar einhver okkar sló boltann út fyrir braut komu þeir á fleygiferð á bílnum til að leita að boltanum. Svo gerðist það að þeir hurfu. Hvað er nú í gangi hugsuðum við. En það leið nú ekki á löngu þar til þeir komu til okkar og með bílinn fullan af Vodka í kók. "Gjörið svo vel og fáið ykkur," sögðu þeir. En undirtektir voru dræmar að fá sér Vodka og kók snemma morguns. "Allt í lagi sögðu þeir. "Þá er bara meira fyrir okkur. Svo hófst rallý-akstur þeirra. Þetta getur ekki endað vel hugsuðum við. Það kom líka á daginn. Þeir hvolfdu bílnum og allt Vodkað í kók fór út um víðan völl. Þeir hlógu vel og lengi að þessu, reistu bílinn bara við og svo var brunað í golfskálann til að kaupa meira Vodka í kók. Nú fór að síga á seinni hlutann hjá okkur en þá sáum við að eftirlitsbíll golfvallarins kom á fleygiferð með blikkandi ljós í áttina að golfbíl Hornfirðingana. Jæja, hugsuðum við, nú ætla þeir að taka golfbílinn af Hornfirðingunum. En nei, þeir voru að koma með eldsneyti á bílinn. "Já, auðvita," sögðum við. "Þeir vilja ekki að svona góðir viðskiptavinir verði stopp. Þegar þarna var komið sögu voru þeir án efa búnir að fara fimm eða sex sinnum í golfskálann til að fylla vel á sig! Þegar við komum svo í golfskálann eftir skemmtilegan dag voru Hornfirðingarnir búnir að panta "hlaðborð" fyrir okkur. Eftir að vera búnir að borða þá var okkur sagt að það gæti tekið um það bil klukkutíma að fá leigubíl. En viti menn. Ekkert vandamál fyrir Hornfirðingana. Þeir vissu af þessu og létu leigubílstjórann, sem ók þeim um morguninn, bara að bíða eftir sér allan daginn. Þið munið: Peningar skipta ekki máli.
Athugasemdir
Þetta hafa sko verið almennilegir menn, MENN SEM "BLAKTA". Maður kynntist mörgum "skrítnum fuglum" á sjónum í "denn", til dæmis var einn sem ég man sérstaklega eftir. Alltaf á landleiðinni þá hringdi hann í sama leigubílstjórann og sá beið á bryggjunni með tvo kassa af brennivíni í skottinu. Þessi maður hafði verið í sömu fötunum allan túrinn og hann rúntaði um alla bæinn og drakk brennivín þar til fatabúðir opnuðu og keypti sér þá ný föt og henti fötunum sem hann hafði verið í og eftir það var svo lagt í langferð út á land. Yfir vetrartímann var helst farið austur fyrir fjall en ef það var mjög gott veður var farið á Sauðárkrók og jafnvel til Akureyrar en yfir sumartímann var allt landið undir. Þannig leið inniveran hjá honum og svo þegar farið var í næsta túr, þá mætti vinurinn í nýju fötunum og var í þeim allan túrinn og svo endurtók sagan sig í næstu inniveru...
Jóhann Elíasson, 20.3.2022 kl. 17:06
Góður!
Sigurður I B Guðmundsson, 20.3.2022 kl. 17:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.