6.12.2016 | 10:01
67ára
Einu sinni var Símoni Dalaskáldi sem kallaður var gefinn trefill og eitthvað fleirra,(en gefandinn var Björn Blöndal Guðmundsson bróðir föðurs míns) gjöfina þakkaði hann með að senda gefanda þessa vísu á miða:
Gjafmildur hann ætíð er
og æsku blóma gæddur.
Sjötta daginn Desember
drengurinn er fæddur.
Já, og núna á ég merkilegt afmæli orðinn eldri borgari og datt því í hug að birta hér vísur sem faðir minn samdi þegar hann varð 67 ára 1987 eða fyrir tæpum 30 árum síðan:
Er ég orðinn gamall eða hvað?
Sjálfur hef ég ekki - hugmynd um það!
Ýmsir eru gamlir
alla sína tíð.
Aðrir virðast ungir,
þótt árum fjölgi í gríð.
Löggilt gamalmenni
þeir gerðu mig í dag.
Frímerkt bréf mér færði
fregn um sólarlag.
67 ár
á sömu kippu öll.
Þetta falska forrit
fremur sálræn spjöll.
Er ég orðinn gamall eða hvað?
Sjálfur hef ég ekki - hugmynd um það!
Getur einhver orðið
ellinni að bráð
á aðeins einni nóttu,
ef allt er tölvuskráð?
Treystir einhver tölvu
er telur ára fjöld
og ákveður að elli
yfirtaki völd?
Heilsa og skapgerð manna
miklu ráða um það,
hvenær elli kerling
kemst á þeirra blað.
Er ég orðinn gamall eða hvað?
Sjálfur hef ég AÐRA hugmynd um það:
Forrit mitt er fleipur
og færsla þess ei blíð.
Í anda verð ég ungur
alla mína tíð!
G. Guðmundarson.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.