Sögur af sjálfum mér nr. 2

Í þá góðu gömlu daga: Þegar ég var 16 ára keypti ég mér Hondu skellinöðru. Tilgangurinn með kaupunum var meðal annars að geta sótt vinnu á Geithálsi þar sem ég hafði fengið sumarstarf. Geitháls var á þessum árum afskaplega vinsæll staður og mikið sóttur af fólki á öllum aldri. Geitháls var um það bil fimm mínútu keyrsla frá Rauðavatni. Unnið var þar á þrem vöktum en Geitháls var opinn allan sólarhringinn sem gerði hann alveg einstakan á þeim árum því það voru ekki margir staðir opnir allan sólahringinn. Á þessum tíma var malarvegur að Geithálsi sem var stundum mjög holóttur en engu að síður var mjög vinsælt að fara í bíltúr alla leið á Geitháls og fá sér t.d. pulsu og kók. Mesta fjörið var þó að vinna á nóttinni og þó sérstaklega um helgar. Stundum var það mikið fjölmenni og mikið grín og gaman. Þá fannst manni lang skemmtilegast í vinnunni. Stundum komu "kaggar" af Keflavíkurflugvelli. Voru þar hermenn og íslenskar stelpur með þeim. Ég man hvað mér fannst skrítið að sjá þessa þeldökku menn. Sumar stelpurnar huldu andlit sín svo ekki væri hægt að þekkja þær. Þessir hermenn voru alltaf afskaplega skemmtilegir og kurteisir og versluðu yfirleitt mjög mikið. Ég man ennþá þegar einn þeirra gaf mér bjór sem var fyrsti bjórinn sem ég eignaðist. Eina nóttina renndi bíll í hlað oog bílstjórinn bað mig að "fylla hann" sem og ég gerði. Þegar hann fór út úr bílnum til að borga sá ég að hann var dálítið "valtur" en ég var ekkert að spá í það enda nóg að gera. Svo ók hann brott en um það bil hálftíma síðar komu lögreglubílar og sjúkrabíll á fullri ferð farm hjá Geithálsi. Einn lögreglubíllinn stoppaði og út úr honum steig lögreglumaður og spurði mig hvort ákveðinn bíll hefði komið við og tekið bensín. Ég játti því og lögreglumaðurinn sagði að ég mætti aldrei afgreiða bensín mönnum sem væru undir áhrifum áfengis. Hafði þá þessi ökumaður endað ökuferðina út í skurði ekki svo langt frá Geithálsi. Mesta fjörið var þó þegar hestamenn komu á nóttinni um helgar. Þá vildi fólk fá að fara á bak. Ef stelpurnar voru í pilsum var þeim (pilsunum) bara kippt upp og svo var farið á bak. Hestamennirnir pössuð alltaf vel upp á að ekki hlytist slys af enda teymdu þeir hestana undir fólkinu, en þeim leiddist þetta nú ekki. Var þarna mikið grín og glens og pelar af öllu tagi teygaðir. Aldrei minnist ég þess að lögreglan þyrfti að hafa afskipti af fólki þarna, hvorki að degi né nóttu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þarna hefur sko verið gott að "vinna" og þetta hefur sko verrið reynsla sem þú býrð að alla ævi..........

Jóhann Elíasson, 16.3.2022 kl. 09:43

2 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Satt segir þú. Næsta færsla verður nokkuð löng en þar hitti ég fyrir vellríka Hornfirðinga í Portúgal. Síðan koma styttri sögur. 

Sigurður I B Guðmundsson, 16.3.2022 kl. 12:12

3 identicon

Hæ, fyrirgefðu að þetta er ekki við efnið frá færslunni þinni en ég er mikill aðdáandi hljómsveitarinnar Led Zeppelin og ég sá að þú minntist á að vera með kassettuspólu og 8 mm kvikmynd frá sýningu þeirra á Íslandi árið 1970 fyrir nokkrum árum.  Eru einhverjar líkur á að þú eigir þessar ennþá?  Með fyrirfram þökk!

Eric Levy (IP-tala skráð) 18.3.2022 kl. 02:20

4 Smámynd: Jens Guð

Þetta er skemmtileg lesning og fróðleg. 

Jens Guð, 19.3.2022 kl. 02:59

5 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Eric Levy ég held að ég sé löngubúinn að týna kassettunni en 8mm spólan er einhverstaðar til og hef ég fengið fyrirspurnir um hana og mun fjlótlega að leita að henni. En upptakan er ömuleg það er það eina sem ég man þegar ég skoðaði hana fyrir tugum árum síðan. 

Sigurður I B Guðmundsson, 20.3.2022 kl. 15:02

6 identicon

Takk fyrir svarið Sigurður. Er einhver möguleiki á að þú hafir áform um að flytja 8mm yfir í stafrænt þegar þú finnur það? Ég er viss um að það væri mjög flott að sjá. Það er synd að segulbandið virðist vera glatað, ef það myndi einhverntíman skjóta upp kollinum yrði ég himinlifandi að heyra það. Ef þú vilt ræða þetta frekar væri ég mjög þakklátur, netfangið mitt er ericlevy062@gmail.com

Eric Levy (IP-tala skráð) 21.3.2022 kl. 18:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband